Heimsókn nemenda á Gljúfrastein

Einn af hápunktum Laxness áfangans er að heimsækja Gljúfrastein, heimili þeirra Halldórs og Auðar. Þar gefst einstakt tækifæri til þess að setja sig í spor skáldsins og sjá hvernig þau hjónin lifðu.
Nemendur höfðu gaman að sjá hversu smekklegt var innanhúss enda heimilið fullt af þekktum hönnunarmublum og málverkum eftir íslenska meistara. Að lokum var farið að Mosfellskirkju þar sem Halldór og Auður hvíla en einnig leituðu nemendur að leiði Guðrúnar Jónsdóttur, vinnukonu á Mosfelli, sem Halldór gerði ódauðlega í Sögunni af brauðinu dýra.