„IT - Escape Room” fékk viðurkenningu eTwinning

Flensborg hlaut viðurkenningu á dögunum fyrir framúrskarandi verkefni. Þær Díana Rós Kristjánsdóttir, Kristrún Ösp Brynjarsdóttir og Sithumini Dewage bjuggu til rafrænan flóttaleik  (e. Escape Room), ásamt tveimur kennurum, sem heitir „IT“ eftir trúðinum óhugnanlega. Verkefnið fékk evrópska gæðamerkið, The European Quality Label, frá eTwinning-starfssamfélaginu.

Haustið 2019 var Sólveig Kristjánsdóttir, stærðfræðikennari í Flensborg, beðin um að taka þátt í samstarfsverkefni í eTwinning, sem er rafrænt samstarf á vegum Evrópusambandsins. Verkefnið var svokallað STEM-project, sem snýst um samþættingu í vísindum, tækni- eða verkfræði og stærðfræði auk ensku.

Margir erlendir skólar lýstu yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu, svo vísa þurfti nokkrum frá. Þeir sem unnu með Flensborgurunum eru frá Frakklandi, Hollandi og Spáni. Verkefnið snerist um að hanna rafrænt „Escape Room“ sem nemendur kölluðu „IT“. Í flóttaleikjum (e. Escape Games) „læsist“ hópur fólks inni og þarf að leita lausna í sameiningu til að komast aftur út.

Sólveig fékk Söndru Borg Gunnarsdóttur, myndlistar- og stærðfræðikennara, í lið með sér. „Við unnum að því að setja saman nemendahóp og var það mesta púslið til að byrja með. Það var nokkuð stór hópur sem byrjaði en svo fækkaði nemendum þegar gerðar voru kröfur um skil og verkefnavinnu eins og gengur og gerist. Við hittum nemendur a.m.k. einu sinni í viku í skólanum. Eftir að við vorum send öll heim í mars, kláruðum við þetta með löngum fjarfundum, þar sem farið var yfir hvernig hægt væri að útbúa verkefni sem þyrfti að leysa með jöfnum svo hægt væri að fara úr einu herbergi í annað og þess háttar,“ segir Sólveig.

Þrír nemendur eiga veg og vanda að verkefninu, þær Díana Rós Kristjánsdóttir, Kristrún Ösp Brynjarsdóttir og Sithumini Dewage. Sólveig segir þær hafa unnið verkefnið að miklu leyti í samvinnu við frönsku krakkana sem hvöttu þær áfram í að læra kóðun til að rafræni flóttaleikurinn gæti orðið að veruleika. „Það var magnað að fylgjast með þeim ná tökum á einfaldri kóðun og gefast ekki upp þó að þær væru ekki komnar langt í stærðfræði.“

Upphaflega átti að gera raunverulegt herbergi í Flensborg og var hópurinn byrjaður að undirbúa það en ekkert varð úr því vegna kórónuveirunnar og á það við um öll þátttökulöndin.

Hér má sjá umfjöllun Rannís um verkefnið:

„Virkilega flott verkefni sem hvetur nemendur ekki einungis áfram í þeim fögum sem verkefnið beinir sjónum að, heldur getur líka haft góð áhrif á sjálfsmynd þeirra með bættri kunnáttu í fagi sem þeim þótti áður erfið. Umsókn er vel unnin og skýr. Vel unnið verkefni sem verðskuldar gæðamerkið.“

Og hér er hluti af tilkynningunni frá eTwinning:

„Congratulations! Your school has been awarded the European Quality Label for the excellence of  the work in the eTwinning project "#EscapeRoom". This means that your work, the work of your students and your school have been recognised at the highest European level.“

Sólveig og Sandra