Íþróttaafrekssviðið í merktar peysur

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði starfrækir íþróttaafrekssvið í samstarfi við ÍBH (Íþróttabandalag Hafnarfjarðar), öll íþróttafélög á landinu og ÍSÍ (Íþróttasamband Íslands).

Íþróttaafrekssvið er hluti af öllum námsbrautum til stúdentsprófs. Séráfangar sviðsins eru ýmist teknir hjá skólanum eða viðkomandi íþróttafélagi. Tilgangur þess er að efla ungt íþróttafólk og búa það undir að stunda íþróttir sem atvinnumenn eða afreksmenn í sinni grein. Díana Guðjónsdóttir er verkefnastjóri með afrekssviðinu og veitir nemendum ráðgjöf og þann stuðning sem þau þurfa á að halda, hvort sem er í námi eða sinni íþróttagrein.

Frá og með haustinu eru nemendur sem stunda nám á íþróttaafrekssviði 254 talsins. Nýlega fengu nemendur merktar peysur og myndin var tekin af hluta hópsins af því tilefni.