- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Flensborgarskólinn hefur á ný fengið jafnlaunavottun staðfesta til ársins 2025 eftir að gerð var úttekt á launakjörum starfsmanna. Vottunarfyrirtækið BSI á Íslandi sá um úttektina en hún felur í sér faglega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á launakjör kynjanna.
Niðurstöður vottunar staðfesta að Flensborgarskólinn uppfyllir áfram þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 og Flensborgarskólinn hefur því sýnt fram á að jafnlaunakerfið er hannað til að ná markmiðum þess og stefnu skólans í jafnlaunamálum, enda hefur það nú verið sannreynt í fjórða sinn. Þegar horft er til fjölda starfsmanna í nefndum á vegum stofnunarinnar skólaárið 2022 - 2023 þá eru starfsmenn alls 37, konur eru þar í meirihluta en þátttaka karla er engu að síður góð en um 60% karla sem starfa við skólann eru virkir í nefndarstarfi.
Meginniðurstöður aðhvarfsgreiningar heildarlauna sýna að konur við Flensborgarskólann eru að meðaltali með 0,5% lægri laun en karlar. Konur eru hins vegar hærri í aðhvarfsgreiningu grunnlauna um 2%. Skýringargildi aðhvarfsgreiningarinnar er hátt, 88,2%, sem sýnir að launauppbygging er fastmótuð og með vel skilgreindum starfahópum.
Tilgangur jafnlaunavottunar er að draga úr kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Það er ljóst samkvæmt þessu að ákvarðanir um laun starfsfólks Flensborgarskólans fela ekki í sér kynbundna mismunun.