Jafnlaunavottun staðfest í annað sinn

Flensborgarskólinn hefur fengið jafnlaunavottun endurnýjaða eftir að gerð var úttekt á launakjörum starfsmanna. Vottunarfyrirtækið BSI á Íslandi sá um úttektina en hún felur í sér faglega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör karla og kvenna. Niðurstöður vottunar staðfesta að Flensborgarskólinn uppfyllir áfram þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Flensborgarskólinn hefur sýnt fram á að jafnlaunakerfið er hannað til að ná markmiðum og stefnu skólans í jafnlaunamálum. Þetta var sannreynt í úttektinni. Útskýrður kynbundinn launamunur samkvæmt launagreiningu fyrir mars 2020 er 2,10% konum í hag fyrir heildarlaun. Munurinn var örlítið minni, konum í hag, þegar kom að grunnlaunum starfsmanna eða 2,02%. Athygli vekur sveifla á útskýrðum launamun kynjanna á milli ára en jafnlaunavottunin frá 2019 sýnd tæpan 2% mun, körlum í hag. Þessi sveifla útskýrist meðal annars með vinnumati kennara sem unnið er í upphafi hverrar annar.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Það er ljóst að ákvarðanir um laun starfsfólks Flensborgarskólans felur ekki í sér kynbundna mismunun.