Líffjölbreytileiki í fortíð, nútíð og framtíð

Nú höfum við kvatt ferðalangana sem hingað komu í tengslum við Erasmus-verkefnið Líffjölbreytileiki í fortíð, nútíð og framtíð. Ferðin var í alla staði vel heppnuð. Gestirnir okkar frá Rúmeníu, Ítalíu, Spáni og Frakklandi voru uppnumdir af íslenskri náttúru og dásömuðu gestrisni íslenska hópsins. Það viðraði vel en sem betur fer fengu ferðamennirnir að upplifa íslenskt rok og rigningu.

Fyrsta stopp hópsins var á Búðum, þá var gengið frá Arnarstapa yfir á Hellna þar sem snætt var nesti. Á Malarrifi var tekið á móti okkur á gestastofunni, þjóðgarðurinn kynntur og svo var gengið undir Snæfellsjökli. Krakkarnir tóku ófáar myndir af Kirkjufelli áður en snæddur var kvöldverður í Grundarfirði.
Næsta dag var farið út í Súgandisey, siglt um Breiðafjörðinn, veitt og borðað. Í Stykkishólmi voru skoðaðir tilraunareitir (slegnar lúpínubreiður) í tengslum við baráttu við ágengar tegundir. Nemendur og kennara gengu í þögn á Helgafellið – flestum tókst ætlunarverkið og fengu að óska sér. Þar var auk þess Vatnasafnið heimsótt. Að lokinni sundferð glitti í norðurljós.

Á fimmtudaginn var haldið á Þingvelli í hávaðaroki. Þar var líka gestastofan heimsótt og gengið um svæðið með þjóðgarðsverði. Í Hellisheiðarvirkjun vorum við frædd um orkumál Íslendinga, þar á meðal hina nýju uppgötvun Carbfix, að breyta koltvísýringi í berg. Þegar við snerum aftur tók skólameistari á móti okkur, kynnti skólann og afhenti nemendum þátttökuskjöl.

Síðasta daginn var rannsóknar- og þróunarsetur Bláa lónsins heimsótt og gengið um Nátthaga.


Þess má geta að alla ferðina var boðið upp á máltíðir án kjöts vegna þess að helstu ógnir við líffjölbreytileika er hamfarahlýnun, m.a. vegna landnotkunar við kjötframleiðslu.

Við erum afskaplega stolt af okkar nemendum og framlagi þeirra. Þeir tóku sérlega vel á móti gestunum og fræddu þá af áhuga um land og þjóð. Eftir því var tekið hversu kurteisir og viðkunnanlegir Flensborgarar eru.

Sólveig Kristjánsdóttir, Ásrún Óladóttir og Hólmfríður Sigþórsdóttir héldu utan um hópinn.