Nemendur í mannfræði við Flensborgarskólann skoðuðu nýlega sýninguna Landnám í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, og fengu góða leiðsögn hjá verkefnastjóra kynningarmála safnsins, Hólmari Hólm.
Á sýningunni eru verk eftir ljósmyndarann Pétur Thomsen þar sem hann rannsakar nýtingu manns á landi og hvaða áhrif hún hefur á náttúruna.
Eins og fram kemur í sýningarskrá er talið að athafnir mannsins hafi gangsett nýtt jarðsögulegt tímabil - mannöld, þar sem lífríki jarðar er að ganga í gegnum sjötta aldauðaskeið sitt þar sem meirihluti tegunda lífríkisins deyr út.
Nemendur í mannfræði eru meðal annars að velta fyrir sér hugtakinu mannöld og sambandi manns og náttúru í breyttum heimi.
Við þökkum Hafnarborg fyrir góðar móttökur og leiðsögn um sýninguna.