Nemendur í forritun á faraldsfæti

Þann 19. febrúar heimsóttu þau CCP sem eru búin að koma sér vel fyrir á glæsilegum skrifstofum í Grósku í Vatnsmýrinni. Þar tóku á móti þeim þau Gunnar Haugen og Arna Kristín Sigurðardóttir en nemendur fengu skemmtilega kynningu um fyrirtækið, starfsemina og auðvitað tölvuleikina sem þar eru forritaðir og framleiddir. Þá fengu nemendur að sjá sverðasafnið en þegar starfsmaður hjá fyrirtækinu nær 10 ára starfsaldri er honum gefið sverð. Sverðin eru geymd upp á vegg sem er kallaður Wall of Swords.

Þann 20. febrúar heimsóttu þau svo HR þar sem nemendur fengu kynningu á tölvunarfræðináminu í HR. Þar tóku á móti hópnum Steinunn Gróa Sigurðardóttir, forstöðukona grunnnáms, og Henning Arnór Úlfarsson, deildarforseti tölvunarfræðideilar. Þá kom einnig fulltrúi frá nemendafélagi tölvunarfræðideildar og hélt stutta kynningu. Það var hún Ásdís Jósefsdóttir Linnet sem hélt kynninguna en hún hóf nám í tölvunarfræði síðasta haust eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Flensborg. Gaman að hitta aftur eftirminnilega nemendur.