Nemendur í Þjóðleikhúsi

Allir nýnemar við skólann auk nemenda í kynjafræði þáðu á dögunum boð um að koma á sýninguna ,,Góðan daginn, faggi" í uppsetningu Sertabendu í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Sýningin er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur sem unnin er upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum. Þar segir hann á gamansaman hátt frá lífi sínu og fjallar á einlægan hátt um aðkallandi málefni tengd hinseginleika; skömm, öráreiti og drauminn um að tilheyra. Sýningin hefur var afar vel sótt síðasta leikár og hefur fengið góðar viðtökur meðal gagnrýnenda og áhorfenda á öllum aldri.

Að sýningu lokinni svaraði Bjarni spurningum nemenda úr sal. Nemendur voru afar áhugasamir og spurðu mikið og ljóst er að sýningin náði vel til þeirra.