Nýnemaferð í bongó blíðu!

Nemendur nutu að þessu sinni dagsins í Þorlákshöfn þar sem nemendafélag skólans skipulagði skemmtilega dagskrá með það að markmiði að nemendur kynnist betur innbyrðis og fái góða innsýn í félagslíf skólans.

Í Þorlákshöfn var farið í ýmsa hópeflisleiki auk þess sem nemendur þeyttust um bæinn í ratleik og léku listir sínar á ærslabelg við ráðhúsið. Bæjarstjórinn í Ölfusi kíkti á hópinn og hafði gaman af heimsókn þeirra í bæinn.

Um kvöldið hélt svo dagskrá NFF áfram í Hamarssal þar sem nýnemar fengu kynningu á nefndum á vegum nemendafélagsins, tóku þátt í ýmsum verkefnum og skráðu sig til nefndavinnu fyrir veturinn. Bæði ferðin og kvöldskemmtunin tókust afar vel og ekki var annað að sjá á nýnemum en að þeir væru glaðir með daginn og veru sína hér í Flensborg.