- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Frá árinu 1975 hefur Flensborgarskóli verið fjölbrautaskóli. Í dag er verið að halda áfram að þróa bekkjakerfi nemenda á fyrsta ári en áfram verður haldið með áfangakerfi á öðru og þriðja ári.
Þær Sigríður Ragna Birgisdóttir og Guðný Ósk Laxdal, tungumálakennarar, eru verkefnastjórar bekkjakerfisins. Þær segja uppruna þessarar tilraunar megi rekja til vorannar 2021. „Í kjölfar breyttra aðstæðna í skólum vegna Covid 19-faraldursins fóru stjórnendur að hugsa upp leiðir sem gætu gert skólanum kleift að halda nýnemum í staðnámi ef takmarkanir yrðu á skólastarfi. Var nýnemum skipt í fasta hópa og var hver hópur með sína stofu til að koma í veg fyrir að nemendur væru að flakka á milli kennslustofa. Í lok þeirrar annar var ákveðið að vinna áfram með bekkjakerfið á markvissari hátt með því að tengja það hámarkinu þannig að hver bekkur hefði sinn umsjónarkennara. Þarna var komið tækifæri til að raungera þá hugmynd sem hámarkið byggði á. Sá áfangi var búinn til á sínum tíma til að skapa bekkjaranda innan hámarkshópsins. En það hafði reynst mjög erfitt í fjölbrautarkerfinu þar sem mikil breyting var á hópunum milli anna og erfitt reyndist að halda sömu hópunum.“
Farin var sú leið að skipta nemendum í bekki eftir brautum, en nemendur geta þó verið í ólíkum hópum í kjarnagreinunum þar sem í þær er raðað eftir einkunnum. Ekki var leitast eftir því við skiptingu nemenda í bekki að hafa sem jöfnust kynjahlutföll. Reyndar er það svo að í Flensborg er meirihluti nemenda strákar, þannig að erfitt er að hafa jöfn hlutföll.
Sigríður segir að nemendur virðist almennt vera spenntir fyrir því að tilheyra bekk. „Það eru þó ýmsar áskoranir í þessu breytta fyrirkomulagi, s.s. atriði er varða bekkjarstjórnun því að menning og samskipti innan bekkjarhóps eru öðruvísi en innan fjölbrautarhóps. Það reynir því meira á kennarann að taka þátt í að skapa þann bekkjaranda sem leitast er eftir.“
Verkefnið verður metið eftir núverandi skólaár og ákvörðun tekin um það hvort þetta fyrirkomulag verði áfram við lýði. Að sögn Guðnýjar er verið að fara í svipað verkefni í Menntaskólanum í Borgarfirði, þó með öðru sniði. „Flestir framhaldsskólar landsins eru annaðhvort bekkjarskólar eða áfangaskólar. Við viljum bjóða nemendum upp á valkost þar sem þeir geta upplifað bæði kerfin í sama skólanum, tryggt ákveðna festu í námi og þannig stutt nemendur í námi enn frekar. Með þessu tekst okkur vonandi einnig að skapa vettvang fyrir nemendur til að mynda sterk tengsl til framtíðar.“
Hér má sjá Vöndu Sigurgeirsdóttur frá KVAN. Hún hélt námskeið um bekkjarstjórnun á dögunum fyrir kennara í Flensborg.