Skólastarf eftir tilslakanir á reglum um sóttkví

Skólastarfið heldur áfram enda gengið nokkuð vel miðað við helstu tíðindi af heimsfaraldri og takmörkunum vegna hans. Þó er svo komið að fjölgað hefur verulega í hópi nemenda og starfsfólks sem hefur annað hvort greinst með Covid-19 eða er í sóttkví vegna náins aðstandanda og því töluvert um kennslufall á þessum allra síðustu dögum.

Eftir tilslakanir á reglum um sóttkví er einstaklingum ekki lengur skylt að fara í sóttkví séu þeir útsettir fyrir smiti utan heimilis en sóttkví er áfram beitt sé smitið innan heimilis. Sérstakar reglur gilda svo um þríbólusetta, en þeir geta áfram mætt í skólann en þurfa að gæta að sér og vera í smitgát.

Hægt er að skoða útskýringarmynd á sóttkví og skyldum þar að lútandi hér.

Við minnum á að alla fjarveru nemenda þarf að tilkynna samdægurs í gegnum INNU og setja í athugasemd hvers eðlis veikindin eru (einangrun/sóttkví). Einnig er mikilvægt að fylgjast vel með náminu á INNU og vera í sambandi við kennara, ef eitthvað er.

Að lokum þá er gaman að segja frá því að lifnað hefur yfir leiklistarstarfi skólans og munu leikprufur fara fram í kvöld. Grænfána var veitt viðtaka í annað sinn á dögunum og þá mun ný stjórn foreldraráðs funda síðar í dag. Meira um það síðar!

Hér má lesa bréf sem skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum fyrr í morgun.