Skólaþróunarverkefni í Flensborg

Fjórir kennarar hlutu styrk í haust til þess að vinna að ólíkum þróunarverkefnum fyrir skólann. Auður Stefánsdóttir þróar nýjan áfanga í íslensku sem heitir Skapandi skrif, Ása Katrín Hjartardóttir innleiðir leiðsagnarmat í áfangann DANS1GR, Hólmfríður Sigurþórsdóttir býr til nýjan áfanga um vistfræði og uppfærir kennslugögn og Snædís Baldursdóttir ætlar að þróa þverfaglegan áfanga sem snýr að leiðsögn um landið. Fögin sem þar eru undir eru íslenska, saga, náttúrufræði og jarðfræði.

Auður, íslenskukennari, sagði okkur nánar frá áfanganum Skapandi skrif sem kenndur er í fyrsta skipti nú í haust. 

Að sögn Auðar er þegar unnið með skapandi skrif í nokkrum áföngum í íslenskunni en hér er mögulegt að virkja sköpunargáfu nemenda með markvissari hætti og þjálfa þá um leið bæði í ritun og lestri. „Áfanginn snýst um að virkja sköpun í ritun. Hugmyndin er að gera það með því að vinna að ýmsum ólíkum verkefnum, svo sem örsögum, smásögum, ljóðum, lagatextum, handritagerð og aðdáendaspuna. Nemendur fá tækifæri til að smakka á ólíkum stílum og átta sig á hvar áhugasvið þeirra liggur. Kennari aðstoðar við hugmyndavinnuna með kveikjum og þematengdum efnum. Notast verður m.a. við spánýjan ritunarvef sem heitir Ronja.is.

Samtal er mikilvægur hluti áfangans. Lögð er áhersla á samtalið milli höfundar og lesenda, við horfum sérstaklega til áhrifa textans og mismunandi túlkunar. Nemendur þjálfast í að tala um texta, bæði með kennara og samnemendum sínum í litlum hópum. Þannig nálgast nemendur hver annan á jafningjagrundvelli og öðlast reynslu í taka uppbyggilegri gagnrýni og veita hana um leið. 

Hugmyndin er að enda áfangann á upplestrarkvöldi þar sem nemendur fá tækifæri til að lesa upp úr völdum verkum eftir sig. Það væri draumur kennarans að geta gefið út hefti með verkum úr áfanganum sem væri til sölu við það tilefni.

Mynd: Frá vinstri, Hólmfríður, Auður og Snædís (á myndina vantar Ásu Katrínu)