- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Síðastliðinn fimmtudag var blásið til hátíðarhalda í Flensborgarskólanum í tilefni þess að þann 1. október fagnaði skólinn 140 ára starfsafmæli. Á svo stórum tímamótum er gaman að geta brotið upp kennslu með ýmsum viðburðum en þema dagsins var Lífsstíll og forvarnir - geðheilsa, kynheilbrigði, samskipti og samlíðan. Nemendur hlýddu á tvö erindi yfir daginn, annars vegar erindi Andreu Ásbjörnsdóttur, hjúkrunarfræðings, um heilsuvernd og forvarnir og hins vegar erindi Siggu Daggar, kynfræðings, og Birgis Arnar Guðjónssonar, lögreglumanns, Settu mörk og virtu mörk. Erindið fjallaði um samskipti ungs fólks og vellíðan í nútímasamfélagi. Einnig gafst nemendum og gestum tækifæri á að kíkja inn í kennslustofu liðinna tíma en lítil sögusýning var sett upp í anddyri skólans þar sem sjá má fjölmarga áhugaverða muni úr sögu skólans.
Andrea, hjúkrunarfræðingur, bauð upp á ráðgjöf um heilsufar og heilbrigði í Koti sem var vel sótt af nemendum og starfsmönnum skólans. Kennarar opnuðu dyr sínar fyrir gestum og gangandi og þar kenndi ýmissa grasa, allt frá stjörnuskoðun yfir í kennslustund um drama í bresku konungsfjölskyldunni. Nemendum barst vegleg gjöf frá foreldrafélagi skólans en á næstu dögum verður pool-borð sett upp innan skólans sem ætti að vekja mikla lukku á meðal nemenda.
En skólinn gaf einnig af sér á þessum tímamótum en ágóði Flensborgarhlaupsins var afhentur fulltrúa Sorgarmiðstöðvarinnar í St. Jósefsspítala og er tileinkaður verkefninu Ungt fólk og sorgin. Erla Ragnarsdóttir, skólameistari, afhenti styrkinn fyrir hönd skólans sem var vel þeginn.
Þá var gefið frí í tilefni afmælisins, föstudaginn 30. september, og starfsfólk og nemendur fengu því langa helgi til þess að hlaða batteríin nú þegar önnin er að verða hálfnuð.