- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
- Spurt og svarað
Starfsþróunarstyrkir voru að þessu sinni veittir þeim Snædísi Baldursdóttur, Eygló Jónsdóttur, Matthildi Rúnarsdóttur og Elínu Guðmundardóttur fyrir haustönn 2020. Sólveig Kristjánsdóttir leiðir einnig verkefni þar sem breyta á einum af grunnáföngum stærðfræðinnar.
Þær Snædís og Eygló munu þróa námsefni, sú fyrrnefnda í tengslum við Brennu-Njáls sögu, Völuspá og Hávamál en Eygló ætlar að þróa námsefni í skapandi skrifum í ensku. Matthildur og Elín verða á stærðfræðinámskeiði á Menntavísindasviði HÍ í vetur.
Styrkurinn er liður í áætlun um fræðslu og starfsþróun starfsmanna. Þar kemur fram að stefna Flensborgarskólans sé að hvetja starfsfólk til að afla sér þekkingar. Þannig megi auka hæfni þess og ánægju í starfi.
Flensborgarskólinn býður starfsfólki upp á fjórar leiðir til starfsþróunar á hverri önn; að sækja sér þekkingu á sviði núvitundar, að greina nám á háskólastigi í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, að búa til nýja og/ eða endurhanna áfanga eða námsefni eða stunda nám og fara í skiptikennslu í Verzlunarskóla Íslands.
Sá kennari er styrkinn hlýtur heldur launakjörum sínum en fær kennsluafslátt vegna verkefnisins, þó aldrei meira en 25%.
Þetta hefur mælst vel fyrir meðal starfsfólks. Fjöldi umsókna ber vott um þekkingarþorsta og áhugi kennara fyrir því að þróa námsefni og áfanga leynir sér ekki.