Það helsta úr skólastarfinu - stuðningur í námi, nýnemavika og nýnemaferð og fleira

Skólastarfið fer vel af stað og allir nemendur skólans komnir með fasta stundatöflu. Það er afar mikilvægt að leggja alúð við skólastarfið strax frá fyrsta degi, þ.e. að mæta vel með bækur og ritföng og vinna heimavinnuna jafnt og þétt. Það skilar sér í betri námsárangri, léttir lífið og gerir að verkum að verkefni vinnist betur. Í þessu samhengi má minna á að ritver skólans er opið þrisvar í viku og þar gefst nemendum tækifæri á að fá aðstoð við verkefnavinnu og ritgerðarskrif. Opnunartíma má sjá á heimasíðu skólans.

Til að styðja enn betur við nemendur er boðið upp á vikulegt raungreinaver en þar er hægt að fá aðstoð í stærðfræði og raungreinum, nemendum að kostnaðarlausu. Raungreinaverið er opið á þriðjudögum frá kl. 15:45 - 16:45 í stofu H202 og er fyrsti tíminn í næstu viku. Einnig er fyrirhugað að bæta í og bjóða einnig upp á aðstoð í hádegishléi en það verður nánar auglýst síðar.

Ef eitthvað kemur upp á í námi er gott að leita til náms- og starfsráðgjafa skólans, þeirra Helgu og Sunnu, en þær eru nemendum ávallt innan handar og leiðbeina í öllum þeirra málum. Einnig býður Rannveig Klara, nemenda- og kennsluráðgjafi upp á aðstoð en hún tekur m.a. við greiningum vegna námsörðugleika.

Þessa dagana er mikið um að vera í félagslífi nemenda. Nú stendur yfir nýnemavika með ýmsum viðburðum sem ná hápunkti í nýnemaferð næsta fimmtudag sem skipulögð er af nemendafélagi skólans. Þau eru einnig að undirbúa nýnemadansleik sem fram fer í byrjun september. Skólinn býður foreldrum nýnema á kynningarfund þriðjudaginn 5. september kl. 17:00 þar sem farið verður yfir það helsta í skólastarfinu

Að lokum minnum við á að í skólanum er nemandi með mikið sítrusofnæmi og því er bann við slíkum afurðum innan skólans. Nemendur eiga því ekki að koma með appelsínur, mandarínur, sítrusdrykki eða annað sem inniheldur sítrus í skólann. Vinsamlegast takið tillit til þess.

 

Hér má lesa bréf í heild sinni sem skólameistari sendi nemendum og forráðamönnum fyrr í dag.