Upphaf skólastarfs á haustönn 2021

Nú styttist í að skólastarfið hefjist af fullum krafti hér í Flensborgarskólanum. Ljóst er að áhrifa COVID-19 gætir enn og áfram verður grímuskylda í skólanum og lögð áhersla á persónulegar sóttvarnir. Við komum til með að búa við fjöldatakmarkanir í matsal en áfram verður hægt að kaupa léttar matvörur, svo sem rúnstykki, skyr, salatbakka, ávexti, orkustykki og drykkjarvörur. Nemendur eru einnig hvattir til að koma með nesti með sér, sérstaklega þegar skóladagurinn er langur.

Stundatöflur nemenda verða opnaðar á mánudaginn n.k. og svo opnar fyrir töflubreytingar eldri nemenda fyrsta skóladaginn, fimmtudaginn 19. ágúst. Töflubreytingarnar fara fram rafrænt á INNU.

Nýnemar hafa verið boðaðir með tölvupósti á nýnemakynningu næsta miðvikudag. Þar gefst þeim tækifæri til að hitta umsjónarkennara og bekkjarfélaga og fá stutta kynningu á því helsta sem hafa þarf í huga í upphafi skólaárs.

Eldri nemendur hafa einnig fengið upplýsingapóst um upphaf skólaársins.

Eins og sést hefur á síðustu mánuðum og ári þá geta hlutirnir breyst mjög hratt og nemendur eru því beðnir um að fylgjast vel með tölvupóstinum og fréttum á vefsíðu skólans. Einnig að vera vakandi yfir helstu aðgerðum almannavarna og fylgja sóttvörnum í hvívetna. Þannig stuðlum við að því að faraldurinn gangi fyrr yfir og að eðlilegt skólahald geti hafist.

 

Hér má sjá bréf sem nýnemar fengu fyrr í dag frá skólameistara og hér má sjá bréf sem eldri nemendur fengu.