Viðhorfskönnun nýnema um líðan og bekkjarkerfi

Nú í nóvember var lögð viðhorfskönnun fyrir nýnema við Flensborgarskólann. Markmiðið var að kanna upplifun nýnema af því að tilheyra bekk, kanna hvernig þeim liði almennt í skólanum, hvort þau teldu sig ganga vel um skólann og hvort foreldrar væru að fylgjast með námi þeirra hér.

Góð þátttaka var í könnuninni en alls svöruðu 103 nýnemar, eða 64%, og niðurstöður hennar gefa vísbendingar um að nemendum líði vel og séu ánægðir með veru sína í bekk.

Helstu niðurstöður:

Um 90% nemenda segjast vera ánægð í skólanum og 88% nemenda líður vel í skólanum.

Nemendur telja andann í bekknum sínum vera góðan en 76% nemenda svara þeirri spurningu jákvætt.  61% nemenda segist eiga auðvelt með að tjá sig í bekknum sínum og svipaða sögu er að segja af vinnufrið en 63% nemenda telja að vinnufriður ríki í kennslustundum.

Hvað varðar samskipti nýnema segja 71% nemenda að samskipti sín séu góð við bekkjarfélaga en athygli vekur að um 23% svara þessari spurningu hlutlaust. 38% nemenda upplifa að einhver nemandi standi utan hópsins. Það er áhyggjuefni en benda má á að verið er að vinna með félagsfærni og félagslega stöðu nýnema í Hámarks-áfanga sem kenndur er á fyrsta ári og er það von skólans að þau eflist í náminu þegar lengra líður á skólaárið.

Nýnemar telja sig almennt ganga vel um kennslustofur og skólann en 93% nemenda svöruðu þeirri spurningu jákvætt. Þau telja sig einnig fylgjast vel með skólanum á INNU og á samfélagsmiðlum skólans. 77% nemenda telja foreldra sína fylgjast vel með námi þeirra í gegnum INNU og um 66% nemenda eru ánægðir með þá eftirfylgni foreldra sinna.

 

Heildarniðurstaða könnunarinnar er 3,95 og skorar því hátt á starfhæfu bili.